Það styttist í kosningar hér á landi og einnig vestur í Ameríku þar sem kosið verður um forseta þess heimsveldis. Kosningabaráttan þar hefur verið ótrúleg og Donald Trump hefur farið lengra en nokkur maður trúði, a.m.k. hér á landi.  Nokkuð bakslag kom þó í framboð hans eftir að einkar óviðeigandi ummæli um konur voru grafin upp sem og vegna slælegrar frammistöðu hans í sjónvarpskappræðum.  Það er ekkert einsdæmi einsog sést af þeim atvikum sem hér verða skoðuð þar sem fyrrum forseta- og varaforsetfambjóðendur hafa slátrað framboði sínu með slælegri framkomu. Oft eru þetta smávægileg mistök sem geta fangað athygli fjölmiðla og þau síðan verða að aðalatriði kosningana.

Hvernig skrifar maður kartafla?
Dan Quayle var öldungardeildarþingmaður frá Gergíu þegar George Bush eldri valdi hann sem varaforsetaefni sitt árið 1988 til að gefa framboði sýnu sterkari ásýnd krafts og æsku.  Fjórum árum síðar fóru þeir aftur fram en þá gerði Quayle afdrifarík mistök sem fylgja honum enn þann dag í dag. Í heimsókn í barnaskóla í New Jersey fylgdist Quayle með nemenda skrifa orðið kartafla „potato“. á töfluna. Quayle leiðrétti nemandann snögglega og sagði hann hafa gleymt stafnum e í lokin. Drengurinn gat ekki annað en brugðist við þegar varaforseti Bandaríkjanna gaf ráð og skrifaði orðið „potatoe“ og fékk hrós frá Quayle að því loknu. Fjölmiðlar vestra sem og um heim allan gerðu úr þessu mikið mál og varð það einkar vandræðalegt fyrir Bush og framboð hans. Bush tapaði kosningunum sem sitjandi forseti í kjölfarið.

quayle1

 

 

 

 

 


Það er alltof heitt hérna

Árið 1960 var Richard Nixon einn þekktasti stjórnmálamaður Bandaríkjanna. Hann hafði verið varaforseti hjá Dwight Eisenhower. Kommúnistaveiðar hans höfðu gert hann mjög umdeildan og var hann hataður af frjálslyndum öflum en dáður af íhaldsmönnum. Landinu gekk vel á þessum tíma og Nixon var með nokkuð forskot á keppinaut sinn John F. Kennedy sem þótti reynslulítill. Annað kom þó á daginn. Kennedy þótti einkar góður ræðumaður, hann var snöggur í hnyttnum tilsvörum og hafði góða innsýn í stjórnmál. Þrátt fyrir það voru líkurnar með Nixon. Þangað til þeir mættust í sjónvarpskappræðum sem voru þær fyrstu í sögu Bandaríkjanna. Mælingar sýndu að þeir sem hlustuðu á kappræðurnar í útvarpi töldu Nixon hafa unnið þær en því var þveröfugt farið með þá sem sáu þær í sjónvarpi. Þar var Kennedy öruggur og brosandi en Nixon var kófsveittur, sífellt þurrkandi á sér andlitið og þótti fölur og flóttalegur. Það sem áhorfendur vissu ekki var að Nixon hafði nýlega gengist undir uppskurð á hné og hafði í kjölfarið fengið sýkingu sem hann var enn að jafna sig eftir.
Nixon gekk mun betur í þeim kappræðum sem á eftir komu en skaðinn var skeður og tapaði hann kosningunum naumlega. Nixon lærði þó af þessu því þegar hann bauð sig fram átta árum síðar þá neitaði hann að taka þátt í kappræðum gegn Hubert Humphrey og vann í kjölfarið kosningarnar.

confident_kennedy

 

En ef konunni þinni væri nauðgað og hún myrt?
Árið 1988 þegar George Bush eldri bauð sig fram eftir að hafa gegnt embætti varaforseta hjá Ronald Reagan voru repúblikanar einkar óvinsælir. Demókratinn Michael Dukakis var af þeim sökum með um 20% forskot á Bush þegar kosningabaráttan hófst og þar til kappræður Bush og Dukakis fóru fram í október. Þáttastjórnandinn Bernard Shaw frá CNN kom þá fram með spurningu sem margir vilja meina að hafi fellt Dukakis. Spurningin sem beint var að Dukakis var eftirfarandi:  Ef konunni þinni, Kitty Dukakis, væri nauðgað og hún myrt, værir þú hlynntur dauðarefsingu fyrir glæpamanninn? Meðan áhorfendur biðu eftir tilfinningaríku svari þá kom Dukakis með svar sem benti til þess að hjarta hans væri fremur úr ís en heitu blóði. „Nei og eins og þið vitið þá hef ég allt mitt líf verið eindreiginn andstæðingur dauðarefsingar,“ sagði hann án allra svipbrigða og tilfinninga. Þrátt fyrir að þetta svar hafi verið í takt við málflutning hans hingað til þá skaðaði þetta hann mikið. Áhorfendur sem sáu engar tilfinningar þegar rætt var um nauðgun og morð og að eiginkona hans væri fórnarlambið virtust álita að hann væri tilfinningalega kaldur og ómannlegur. Fylgi Dukakis hrundi í kjölfarið og hann náði sér aldrei á strik í kosningunum sem Bush síðan sigraði.dukakis-rape

 

 

Stjórnmálamenn eiga aldrei að setja á sig höfuðfat
Meira af Dukakis og kosningunum 1988.  Á hátindi kalda stríðsins voru öryggismál gríðar mikilvæg. Bush benti reglulega á veikleika Dukakis þegar kom að þessum málaflokki. Í herbúðum Dukakis var ákveðið að bregðast við þessu með því að taka af honum myndir í herstöð í Michigan. Hann var því myndaður stjórnandi M1a1 skriðdreka og með hjálm á höfðinu sem var alltof lítill á stórt höfuð hans. Niðurstaðan varð miklu frekar eins og að lítill drengur væri að leika sér fremur en að þar væri við stjórnvölinn verðandi leiðtogi hins frjálsa heims. Í herbúðum Bush voru þessar myndir nýttar í auglýsingaskyni þar sem rifjuð var upp andstaða Dukakis við aukin framlög til hernaðarmála meðan mynd af honum keyrandi skriðdrekann rúllaði á skjánum. Þessi auglýsing hefur verið talinn síðasti naglinn í líkkistu framboðs Dukakis.

dukakis

 

 

 

Sovétríkin stjórna ekki Austur-Evrópu
Gerald Ford er eini forseti Bandaríkjanna sem hefur ekki verið kjörinn í embætti. Hann komst til valda þegar Nixon sagði af sér, en Ford var gerður að varaforseta eftir afsögn Spiro Agnew vegna mútumáls. Af þessum sökum urðu kosningarnar árið 1976 nokkuð sérstakar því báðir frambjóðendurnir, Ford og Jimmy Carter, voru óþekktir. Ford lagði mikla áherslu á að hann væri reynslumikill í heimi stjórnmálanna eftir að hafa setið sem varaforseti hjá Nixon. Stærri áskorun fyrir Ford var kannski sú að hann var álitinn einfaldur, jafnvel vitlaus og klaufalegur. Í því samhengi má fullyrða að Ford hafi keyrt framboð sitt út í skurð í öðrum kappræðum sínum við Carter. Í tilraun til að virðast harður og vel að sér um utanríkismál fullyrti Ford „að Austur-Evrópa væri ekki undir járnhæl kommúnsimans og slíkt myndi ekki gerast með Ford sem forseta“. Þetta var ótrúleg fullyrðing þar sem Austur-Evrópa var á þessum tíma undir algerri stjórn Sovétríkjanna. Þáttastjórnandanum var mjög brugðið og bað hann Ford um að endurtaka þessa fullyrðingu. Sú ímynd að Ford væri ekki vel að sér, og jafnvel einfaldur, styrktist hjá almenningi. Framboð Fords náði aldrei aftur flugi og tapaði hann kosningunum.

gerald_ford-ab

 

Fréttafíkilinn Sara Palin
Þegar John McCain, eldri öldungardeildarþingmaður og fyrrum stríðshetja frá Arizona var valinn frambjóðandi repúblikana gegn Barack Obama þótti mörgum McCain vera reiður og gamall. Val hans á varaforsetaefni þótti hins vegar vera snilldarbragð þegar hann fékk sér til liðs Söru Palin, óþekktan ríkisstjóra Alaskafylkis. Á flokksráðstefnu Repúblikanaflokksins þótti Palin hafa mikla persónutöfra og fékk framboðið aukin stuðning í könnunum. Því miður féll þó fljótt á silfrið og fóru persónutöfrar Palin minnkandi, því meira sem hún tjáði sig. Þekkingarleysi hennar á mikilvægum málaflokkum varð fljótt mjög áberandi og sögusagnir fóru á kreik  um að hún kærði sig meira um frægð og frama en að þjóna almenningi. Steininn þótti þó taka úr þegar hún fór í viðtal hjá Katie Couric og í ljós kom að hún hafði ekki undirbúið sig. Svaraði hún spurningum með spurningum og gat aðeins nefnt eina niðurstöðu Hæstaréttar Bandaríkjanna sem henni þótti skipta máli en niðurstöður dómsins hafa oft gríðarleg áhrif á bandarískt samfélag. Steininn þótti svo taka úr þegar hún var spurð hvaða fjölmiðla hún læsi og kvaðst hún þá lesa þá alla („All of em. Any of em“). Palin sagðist einnig vera sérfræðingur í utanríkismálum þar sem Putin Rússlandsforseti flygi reglulega yfir lofthelgi Alaska.  Var frammistaða hennar svo slök að einungis hægrisinnuðustu kjósendurnir héldu tryggð við hana. Þótti hún vera mikill dragbítur á framboð McCain sem á endanum tapaði fyrir Barack Obama.

palin-mccain