Valþór Hlöðversson útgáfustjóri skrifar

 

Þau búa lengur heima

Samfara bættum efnahag þjóðarinnar og uppgangi í atvinnulífinu, einkum ferðaþjónustu og skyldum greinum, er ljóst að allt of lítið er byggt af íbúðarhúsnæði til að mæta eftirspurn. Afleiðingin er sú að verð spennist upp og æ stærri hluti þeirra efnaminni hafa engin tök á að komast í eigið húsnæði. Þarna er vá fyrir dyrum og mikilvægt að allir taki höndum saman um að leysa vandann.

Samkvæmt upplýsingum Samtaka iðnaðarins bjuggu árið 2005 um það bil 10% einstaklinga á aldrinum 25-34 ára enn í foreldrahúsum eða um 4.200 manns. Níu árum síðar var þetta hlutfall komið í 14% eða 6.700 manns og hafði því hækkað um 60%. Á þessu eru ugglaust margar skýringar en það sem hefur mest áhrif er sú staðreynd að æ kostnaðarsamara er fyrir ungt fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið.

 

Í nýsamsþykktu svæðisskipulagi fyrir höfuðborgarsvæðið er gert ráð fyrir því að meginhluti nýbyggðar á höfuðborgarsvæðinu verði á næstu áratugum innan núverandi byggðamarka. Þétting byggðar er þannig áhersluatriði allra sveitarstjórnanna sem þýðir að lítið verður á næstu árum byggt á jöðrunum. Þótt þétting byggðar sé hið besta mál hefur þessi stefna það í för með sér að þar er byggt á tiltölulega dýrum lóðum, oft við krefjandi og erfiðar aðstæður, sem samanlagt leiðir til þess að kostnaður við nýbygginguna hækkar.

Lóðaverðið er gríðarlega stór þáttur í heildarkostnaði íbúðar en ekki er óalgengt að sá eini þáttur nemi 6,5 milljónum króna á 100 fermetra blokkaríbúð. Á sumum þéttingarsvæðum er lóðaverðið mun hærra. Þessu til viðbótar hafa skipulags- og byggingaryfirvöld stöðugt aukið kröfur um frágang og gæði íbúða og nægir þar að nefna kröfur um bílageymslur. Í norðangarranum þykir flestum þetta vera kostur en færri hugsa út í hvað þessi gæði í raun kosta húsbyggjandann. Varlega áætlað má því gera ráð fyrir því að kostnaður við stæði í bílageymslu sé um 4 milljónir króna á íbúð. Þegar þannig er í pottinn búið að kostnaður pr. íbúð vegna eingöngu lóðagjalda og bílgeymslu er samanlagt orðinn um og yfir 10 milljónir króna er auðvelt að átta sig á því að hvers vegna efnalítið fólk getur ekki tekið þátt í slíkri fjárfestingu. Það sem sárlega vantar er meira framboð af ódýrum lóðum þar sem byggingaraðilar geta hannað og byggt hagkvæmar en einfaldar íbúðir fyrir þá efnaminni, einkum ungt fólk.

Vel meinandi ráðamenn þjóðarinnar, sem mikið tala um nauðsyn þess að aðstoða ungt fólk við að komast í eigið húsnæði, ættu að huga að þessu. Þannig væri auðvelt að lækka íbúðaverð um 10-15 milljónir króna. Í stað þess að einblína á lausnir sem þýða meira lánsfé og lengri lánstíma ættu yfirvöld að leggja sig fram um að draga úr byggingarkostnaði með samræmdum aðgerðum, bæði ríkis og sveitarfélaga. Það er affarasælast fyrir alla þegar upp er staðið. Því til viðbótar væri gott búsílag ef stjórnvöld ynnu skipulega að því að koma þjóðinni út úr vonlausu myntumhverfi krónunnar og skapa þar með skilyrði til afnáms verðryggingar og lækkunar vaxta sem allt eru lifandi að drepa.

Ráðamenn góðir hjá ríki og borg: Boltinn er hjá ykkur!