Samfélagsmiðlar fengu fljótt á sig þann stimpil hér á Íslandi að þar færu gagnslausir tímaþjófar fyrir fólk sem hefði aðgang að tölvu, nennti ekki að sinna starfinu sínu – og kæmist upp með það. Í einhverjum tilvikum átti þetta eflaust við rök að styðjast og sér í lagi um Facebook á fyrstu árunum eftir að sá miðill tók að breiðast út. Þær byltingarkenndu leiðir sem þar opnuðust fyrir fólk til að tjá sig, deila hugðarefnum og tengjast vinum og löngu „týndum“ ættmennum slógu svo rækilega í gegn að margir áttu erfitt með slíta sig frá þessum nýja vettvangi.

Facebook kom fram árið 2004 og Twitter fylgdi í kjölfarið 2006. Alls kyns samfélagsmiðlar hafa síðan sprottið upp. Sumir hafa náð mikilli útbreiðslu og aðrir minni eins og gengur og gerist en þvert á allar spár hafa bæði Facebook og Twitter haldið velli og ekkert lát virðist þar á. Almennur aðgangur almennings að Netinu fyrir um 20 árum var slíkt bylting að enn sér ekki fyrir endann á þróuninni. Tilkoma samfélagsmiðla opnaði enn stærri víddir sem virðast án allra endimarka. Samskiptamöguleikarnir eru nánast óþrjótandi þar sem netsambands nýtur á annað borð.

Einfalt … en samt flókið
En rétt eins og allar tækninýjungar hefur Netið bæði kosti og galla. Kostirnir birtast okkur m.a. í gríðarlegu aðgengi að upplýsingum og þægilegum möguleikum til að kaupa hvers kyns vörur og þjónustu. Glansmyndin sem við okkur blasir er hins vegar kannski ekki svo björt og falleg lengur þegar babb kemur í bátinn. Hver kannast ekki við flækjustigið sem fylgir því ef breyta þarf pöntun, leita þarf skýringa eða kanna möguleika á endurgreiðslu vegna galla eða mistaka. Oftar en ekki býðst netverjum að kemba í gegnum FAQ (Algengar spurningar) og jafnvel langa undirflokka þar. Sé svarið ekki að finna þar er góðfúslega boðið upp á að hafa samband. Contact us. Ef ekki í gegnum sjálfa vefsíðuna þá í tiltekin símanúmer. Sá sem tekur upp símann hinum megin er gjarnan í símaveri í fjarlægu landi og les upp forskrifaðar setningar af mikilli alúð en oft takmörkuðum skilningi á raunverulegu erindi.

Töfralausnin getur heitið Twitter
Tölvukynslóð nútímans nennir ekki löngum ratleikjum um óendanleg völundarhús. Og hvað er þá til ráða? Töfralausnin getur heitið Twitter. Við erum með fjögur nýleg dæmi úr samskiptum við rekstraraðila í alþjóðlegu viðskiptaumhverfi. Eftir að hafa reynt hefðbundnar leiðir og seinlegar eftir var loks brugðið á það ráð að egna fyrir þessa aðila á Twitter.Þráðurinn var orðinn stuttur þegar gripið var til þess að senda þessa spurningu út: „Are you really still operating?“ Ekki stóð á viðbrögðum. Það er nefnilega ekkert sérlega smart fyrir stórfyrirtæki að láta svona comment standa lengi fyrir augum tístara um allan heim án þess að svara því. Ekki þarf að taka fram að erindið var farsællega leyst.

Að skreyta sig með stolnum fjöðrum
Í gegnum þessi tilteknu samskipti rákum við okkur á að eitt umræddra fyrirtækja var ekki einu sinni með grunnatriði virkni Twitter á hreinu. Pínlegt var að þurfa að benda á það fyrir allra augum en undan því varð ekki vikist.  Samfélagsmiðlar eru mögnuð verkfæri ef rétt er staðið að málum. Varist samtað skreyta ykkur með stolnum fjöðrum (Lesist: lógóum samfélagsmiðla) á vefnum ykkar ef þið hafið ekki grunnþekkingu á viðkomandi vettvangi. Það lítur ekki vel út og getur í besta falli orðið grátbroslegt.