Efnismarkaðssetning er allsstaðar þessa dagana. Staðreyndin er þó sú að það er ekkert nýtt við þessa leið þ.e. að nýta sér efni til þess að laða til sín viðskiptavini. Efnismarkaðssetning er miklu frekar ný nálgun þar sem þessi leið er skilgreind og skipulögð með markmið.

Hjá Athygli skilgreinum við efnismarkaðssetningu eftirfarandi: Efnismarkaðssetning er nálgun þar sem lögð er áhersla á að búa til og dreifa reglulega efni sem er virðisaukandi, fræðandi og viðeigandi fyrir skilgreindan markhóp. Markmiðið er að nálgast nýja notendur og viðhalda þeim sem fyrir eru. Með því að byggja upp samband neytenda og fyrirtækis með þessum hætti er stuðlað að því að neytandinn sjálfur kjósi að nýta sér þjónustu eða kaupa vörur viðkomandi.

Af þessu leiðir að efnismarkaðssetning er orðin strategísk og skipulögð rétt einsog hefðbundin markaðsfræði.
Við tókum saman nokkur leiðarstef hér sem nauðsynlegt er að hafa við höndina ef farið er af stað með efnismarkaðssetningu.

1. Skilgreindu markhópinn áður en þú ferð að framleiða efni.
Fyrsta skrefið er að hugsa um markhópinn sem lesendur frekar en mögulega viðskiptavini. Markmiðið er að búa til efni sem er áhugavert en tengist jafnframt vörumerkinu þínu.
Skoðaðu verðmætustu viðskiptavini þína og þá sem eru virkastir á vef- og samfélagsmiðlasvæðum þínum og reyndu að átta þig á því hvaða efni þessum hópum finnst áhugavert.

2. Skilgreindu þema og stíl á efni
Málfræði þarf að vera í lagi það segir sig sjálft. Það má hinsvegar setja niður blæbrigði raddar, ákveða hvernig orðalag skuli viðhaft og hvernig tónninn eigi að vera. Það segir sig sjálft að drepleiðinlegt stofnanamál og tækniþvaður mun ekki verða líklegt til vinsælda.
3. Lærðu að endurvinna efni og nýta það aftur
Út er vel skrifaðri grein má vel búa til stutta grafíska skýringarmynd, myndband eða mörg ólík tíst á Twitter. Það má pósta efni aftur eftir ákveðin tíma með uppfærðum upplýsingum.

4. Búðu til efni sem er tímalaust
Með því að búa til efni sem er tímalaust getur líftími þess á netinu verið mjög langur. Fréttir og fréttaskýringar hafa stuttan líftíma „old news“ hafa aldrei þótt áhugaverður. Af þeim sökum ber að varast að flækja fréttatengdum viðburðum í efnið sem dreifa skal.

5. Leitaðu að ónýttum leiðum á leitarvélum
Reyndu að staðsetja þig á verðmætasta svæðinu á leitarvélum. Þar sem samkeppnin er ekki. Hér er nauðsynlegt að skoða magn ákveðinna leitarorða og reyna að framleiða efni sem fær háan sýnileika á leitarvélum.

6. Búðu til gæðastöff
Það er nógu mikið af efni um allan fjandann á netinu. Ef þú vilt standa upp úr og ná í gegn þá þarftu að búa til gæðefni.

7. Vertu frumleg/ur
Þetta er eina leiðin og sú langbesta til að skera sig úr hópnum. Það er sama sagan hér og áður, mikið af efni á netinu er endursögn, þýðing eða hrein og klár afritun. Besta leiðin til þess að vera frumleg/ur er að nota þína eigin rödd, skrifaðu þinn eigin texta, út frá þínum skoðunum frekar en að endurtaka eitthvað sem þú finnur.

8. Skapaðu efni sem er sýnilegt og auðvelt til aflestrar
Fyrirsögn og innihald skipta að sjálfsögðu lykilmáli en lesendur geta vel stokkið í burtu ef efnið er ekki brotið upp með fyrirsögnum og undirfyrirsögnum. Notaðu stuttar málsgreinar og feitletraðu lykilatriði með punktum og reyndu að nota sem mest myndmál.

9. Póstaðu reglulega
Þegar efnismarkaðssetning er skipulögð þá skiptir gríðarmiklu máli að gefa reglulega út efni svo lesendur þínir og markhópur komi aftur og aftur á vefsvæði þitt. Eins skráir Google inn nýtt efni á yfirferð sinni um internetið sem getur haft mikið að segja varðandi sýnileika á þessari stærstu leitarvél heimsins.

10. Mældu árangurinn og reyndu að læra af reynslunni
Við notum Google analytics og Facebook Insights mjög mikið við okkar vinnu hjá Athygli. Auk þess notum við Dasheroo til að fá yfirsýn yfir alla okkar samfélagsmiðla til að meta árangur og hvernig viðtökur eru við því efni sem við dreifum. Með því að fylgjast reglulega með, þá höfum við öðlast ágætis skilning á því hvað virkar á íslenskum markaði og hvað ekki.
Skjámynd af Dasheroo stjórnborði okkar hjá Athygli

Dasheroo

Viltu fá tölvupóst þegar við birtum næsta pistill? Skráðu þig á póstlistann hér að neðan.