Ein algengasta spurningin sem við fáum frá fyrirtækjum, stofnunum og félagasamtökum vegna samfélagsmiðla er hversu oft eigi að pósta á samfélagsmiðlum.  Það er fín lína á öllum samfélagsmiðlum sem þarf að feta milli tíðni pósta sem deilt er og þess að fylgjendur skrái sig af síðum vegna þess að áreitið er of mikið. Það skiptir því miklu máli að finna þetta jafnvægi sem byggir á vísindalegum athugunum og tilfinningu. Árangur á samfélagsmiðlum fer nefnilega mikið til eftir því á hvaða miðli þú ert að deila efni, hvaða efni þú ert að deila og ekki hvað síst tilraunastarfsemi þar sem árangurinn er mældur með heimsóknum, virkni og því sem fjallað er um þessum pistli sem er tíðni pósta. 

Athygli fjallaði um daginn um hvenær best er að deila efni á samfélagsmiðlum. Við mælum að þú lesir þann pistill.

Aðalatriðið er að ef þú ert með gott og vandað efni sem er virðisaukandi og á erindi við markhópinn þinn þá áttu að deila því.
Það eru mismunandi reglur milli ólíkra samfélagsmiðla hvað varðar dreifingu á efni. Skoðum hvernig þetta er milli ólíkra samfélagsmiðla.

Facebook.com
Fyrir fyrirtæki er talið að best sé að deila 1-2 póstum á dag á virkum dögum og ekki meira en einum á dag um helgar. Socialbakers.com skoðuðu deilingar nokkura mjög þekktra vörumerkja og sáu að þau deildu að meðaltali einum pósti á dag. Ef deilingar eru fleiri en þrjár á dag hafði það neikvæð áhrif á virkni (engagement) pósta og líkendum síðu fækkaði samkvæmt rannsóknum SocialBakers.com.
Vegna gríðarsterkrar stöðu Facebook og vinsælda þarf Facebook að sía út efni og velja það efni sem birtist á tímalínu hvers og eins. Það gerir Facebook með flóknum algórythmum og útreikningum. Það þýðir á mannamáli að ef notandi er ekki með neina virkni við póst (líkar við, deilir eða skrifar ummæli) þá minnka líkurnar verulega á að hann sjái pósta frá viðkomandi í framtíðinni. Það skiptir því miklu meira máli að deila góðu og vönduðu efni sem kallað getur á virkni notenda heldur en að pósta efni oft.

Facebook meðaltíðni pósta

Meðaltíðni pósta hjá Socialbakers

Twitter
Ólíkt Facebook þá birtast allir póstar á Twitter (engin síun á sér stað) sem aftur leiðir til þess að líftími pósta á Twitter er mun styttri eða um tvær klukkustundir. Þessi tala getur verið enn styttri ef sá sem fær tvítið fylgir mörgum á Twitter. Track social greindi árangur tvíta og samkvæmt þeirra niðurstöðum er heppilegast fyrir aðila í atvinnurekstri að pósta 4-15 tvítum á dag. Hér er nauðsynlegt að gera tilraunir og skoða og greina vel hvað heppnast og hvað ekki. Það má þó á það benda að stórfyrirtæki sem starfa á ólíkum mörkuðum og tímabeltum munu líklega ná meiri árangri með að pósta 10-14 tvítum á sólarhring meðan smærri fyrirtæki á einu markaðssvæði komast vel af með 4 tvít á dag. Þar sem tvít hafa mjög skamman líftíma er í góðu lagi að tvíta sama efninu nokkrum sinnum á dag með það að markmiði að auka dreifingu. Þó er gott að ef tvíta eigi sama efninu að breyta texta tvítsins lítilega.

Tíðni pósta á Twitter

Tíðni pósta á Twitter

Linkedin
Samkvæmt gögnum frá Linkedin eru æskilegt að deila efni 20 sinnum á mánuði eða einu sinni hvern virkan dag vikunnar. Helgarnar eru ekki góðar til að deila efni vegna sterkrar tengingar miðilsins við vinnu fólks. Flestir notendur taka sér frí frá Linkedin um helgar líkt og við vinnu. Forðast skal hreina kynningarpósta á Linkedin þar sem það fer algerlega gegn tilgangi Linkedin sem er að deila efni sem tengist starfsumhverfi og atvinnulífi. Það þarf ekki að taka það fram að persónulegir póstar með kettlingum eða börnunum þínum eiga ALDREI að fara inn á Linkedin til dreifingar.

Instagram
Instagram er á vissan hátt í nokkrum sérflokki. Samfélagsmiðilinn er sniðinn að snjalltækjum og er notkun hans mikið til í gegnum slík tæki. Áður var talið að ekki ætti að pósta oftar en einu sinni á dag en samkvæmt athugunum Union Metrics er það ekki rétt. Fyrirtækið skoðaði hegðun 55 þekktra vörumerkja yfir nokkura mánaða tímabil. Á tímabilinu póstuðu fyrirtækin að jafnaði 1,5 myndum á dag. Talið var að ef póstað yrði meira en 1-2 á dag myndi það hafa neikvæð áhrif á fylgjendur. Samkvæmt rannsóknum Union Metrics hefur tíðni pósta engin neikvæð áhrif hvort sem fyrirtæki póstuðu eini sinni á klukkustund eða 10 sinnum á sólarhring. Hinsvegar var sterk fylgni milli þess að fyrirtækin í rannsókninni póstuðu myndum ekki reglulega eða hættu því um stutta stund með þeim afleiðingum að fylgjendum fækkaði.

Pinterest
Pósta ætti 4-10 sinnum á dag. Pinterest er magnmiðill þannig að fáir póstar munu ekki hafa mikil áhrif fyrir fyrirtæki og stofnanir. Lykilatriði er að pósta vönduðum og vel unnum myndum og notast skal við láréttar myndir frekar en lóðréttar. Rannsóknir hafa sýnt að þær fá meiri virkni og þær taka upp meira pláss á skjánum. Mikilvægt er að nota góð lykilorð (keywords) í lýsingu.

Youtube
Hér ætti að reyna að hlaða upp myndböndum nokkrum sinnum á mánuði. Myndbönd eru gríðarsterk um þessar mundir. Þar sem vinna á bak við góð myndbönd er umtalsverð er eðlilegt að tíðni þeirra sé lægri en á öðrum samfélagsmiðlum. Mikilvægt er að deila myndböndum á öðrum samfélagsmiðlum þínum til að auka sýnileika.

Vilt þú fá aðstoð við að skoða þessi mál hjá þér? Sláðu á þráðinn til okkar 515-5200 eða sendu okkur póst athygli@dmn5.chantal.shared.1984.is og við getum bókað stuttan fund og farið yfir þessi mál.

Viltu fá tölvupóst þegar við birtum pistla. Skráðu þig á póstlistann hér að neðan.