Nýliðið ár var einkar gott fyrir Facebook 197 milljón manns bættust í notendahóp miðilsins og nú notar yfir einn milljarður manna þennan samfélagsmiðil gegnum snjalltæki. Stofnandi Facebook hefur látið hafa eftir sér að myndbönd séu það sem koma skal á næstu 12 mánuðum, einkum þá myndbönd frá beinum útsendingum og 360 gráðu myndir.

Myndbönd eru framtíðin
Þetta er skynsamlegt, enda öllum ljóst að kynslóðunum sem nú eru að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði er mun tamara að nota myndabandaformið til að miðla skilaboðum frekar en að skrifa texta. Hefur Facebook nýverið kynnt tækninýjung þar sem hægt er að smella á myndavélatákn sem tekur upp stutt myndband sem notandinn getur síðan  deilt eins og hefðbundnum póstum á tímalínu. Líkt og hjá Snapchat verður jafnframt mögulegt að bæta við ýmsum fídusum og grafík inn í myndböndin.

Þessi myndbandaviðbót á Facebook er greinilega sett til höfuðs Snapchat og er hún nú þegar aðgengileg notendum á Írlandi í tilraunaskyni. Þá er líklegt að þessi myndbandaviðbót verði orðin aðgengileg á öllum markaðssvæðum Facebook á þessu ári. Eins og sést á myndbandinu hér að ofan verða ýmsar viðbætur á boðstólnum hjá Facebook sem ekki eru á Snapchat.

Ef vel tekst til hjá Facebook með þessa nýjung og fleiri möguleikar verða í boði en hjá Snapchat varðandi grafík og aðra myndvinnslu er líklegt að þeim takist að ná til sín nýjum notendum og halda þeim hjá sér og höggva þannig skarð í sterka markaðshlutdeild Snapchat á þessum vettvangi.

Þó að þetta útspil Facebook muni varla drepa Snapchat er samt líklegt að það muni hefta vöxt Snapchat og jafnvel neyða Snapchat til að þróa enn frekari nýjungar og auka þjónustu. Þá má nefna að í miðjum síðasta mánuði tengdi Facebook myndavélina við Messenger skilaboðaforritið í snjalltækjum og þar með er hægt að senda myndskilaboð á nánast sama hátt og á Snapchat.

Facebook Live
Mikil auking hefur verið í beinum útsendingum á Facebook á síðastliðnu ári. Samkvæmt tölum frá fyrirtækinu hafa slíkar útsendingum fjórfaldast síðan í maí 2016. Eins eru slík myndbönd að ná mun meiri virkni en aðrir póstar á miðlinum.
Það má því fastlega reikna með því að Facebook muni leggja aukna áherslu á þenna miðil og gera atlögu að Perescope, sem er sá samfélagsmiðill sem er leiðandi í beinum útsendingum með snjalltækjum. Væntanlega mun það skila Facebook mestum fjárhagslegum ágóða í þessum útsendingum að vinna með stórum efnisframleiðendum. Í framtíðinni verður þá t.a.m. jafnvel hægt að horfa á sjónvarpsþætti í beinni útsendingu gegnum Facebook Live.

Samhliða þessu mun Facebook hasla sér völl í sjónvarpstækjunum okkar. Þrátt fyrir að mjög aukna notkun myndefnis á Internetinu er sjónvarpið ennþá í lykilstöðu þegar kemur að áhorfi heima fyrir.
Facebook mun því vafalaust leggja aukna áherslu á að tengjast sjónvarpstækjum okkar á auðveldan og skilvirkan hátt og í lok síðasta árs kynnti fyrirtækið nýjar og betri lausnir til að streyma efni í sjónvarp í gegnum Apple TV og Google Chromecast.

Það er að sönnu jákvæð þróun en að sama skapi ákaflega lítill hluti af heildarkökunni. Talið er að í heiminum séu um 25 milljónir Apple TV og 30 milljónir Chromcast streymitækja. Til að ná sýnilegum árangri þarf Facebook því að koma fram með enn betri lausnir.
Samkvæmt einkaleyfi sem skráð var á síðasta ári er Facebook að vinna að tæknilausn sem kallast  Social TV Dongle og á hún að tengja saman síma og sjónvarp á einfaldan hátt.
Ef vel tekst til er ljóst að Facebook getur komið af stað algerri byltingu varðandi streymingu á efni í bæði ólínulegri og beinni dagskrá og er því einkar spennandi að fylgjast með þessari þróun.

Langar þig að fá tölvupóst þegar við birtum pistla. Skráðu þig á póstlista hér að neðan og við sendum þér póst þegar við birtum næsta pistil.