Almannatengsl snúast að stórum hluta um ímyndarmál; hvernig byggja á upp ímynd, hvernig á að viðhalda henni og hvað ber að forðast til að ekki falli á hana skuggi. Að byggja upp ímynd er þolinmæðisvinna en það þarf aðeins örskotsstund til þess að leggja ímyndina í rúst. Viðureign Íslendinga og Portúgala á EM 2016 í Frakklandi var skólabókardæmi um hvernig knattspyrnuleikur getur haft afgerandi áhrif á ímynd, jákvæð eða neikvæð eftir atvikum. Aðdáunarverð baráttugleði og þrautsegja íslenska landsliðsins vakti athygli langt út fyrir Evrópu. Fjölmiðlar og knattspyrnuunnendur glöddust undantekningalaust með smáþjóðinni sem vogaði sér að krækja í jafntefli gegn stórþjóð í sínum fyrsta leik í úrslitakeppni EM. Á þeim 90 mínútum sem leikurinn stóð yfir skaut ímynd Íslands svo sannarlega upp á stjörnuhimininn.  Í leik, sem sýndur er í sjónvarpi langt út fyrir endimörk Evrópu sjálfrar, getur athyglin sem fylgir hetjulegri framgöngu reynst dýrmæt fyrir ímynd lands og þjóðar – kannski aldrei eins dýrmæt og eftir vægast sagt skaðlega umfjöllun um ráðamenn landsins í tengslum við svokölluð Panamaskjöl.

Sjálfsmark Ronaldo
Stórstjarnan Cristiano Ronaldo í liði Portúgala gerði hins vegar fátt annað en að sverta eigin ímynd. Fyrst með látbragði og líkamstjáningu í leiknum sjálfum og síðan þegar hann neitaði að taka í hönd andstæðinganna í leikslok. Afar óíþróttamannslegt en ekkert einsdæmi. Það var hins vegar í viðtali eftir leikinn sem Ronaldo gekk alveg fram af fólki með barnslegri sjálflægni og hroka.. Þar fór hann niðrandi orðum um smælingjahátt íslensku leikmannanna sem eðlilega glöddust eftir óvænt úrslit.Fjölmiðlar og knattspyrnuunnendur um allan heim hafa fordæmt framkomu hans. Twitter logaði bókstaflega eftir leikinn og rúm 400 þúsund tíst báru #Ronaldo. Hætt er við að almannatengslateymi kappans hafi í nógu að snúast næstu daga.

Hverfum nokkur ár aftur í tímann.

Af skínandi stjörnu og stjörnuhrapi
Það var sumarið 2009 að Ronaldo yfirgaf herbúðir Manchester United og hélt til Real Madrid. Á meðan hann rísandi stjarna hans skein skært við vistaskiptin voru „hryðjuverkamennirnir“ norður í Dumbshafi enn að reyna að klóra sig fram úr leikaðferðinni sem skilaði þjóðinni svo ævintýralegu bankahruni sem raun bar vitni haustið 2008. Hver sem taktíkin nú var er ljóst að hún skilaði Íslandi alvarlega laskaðri ímynd. Sannkallað stjörnuhrap. Á meðan ráðvillt þjóð setti á fót nefndir og skrifaði skýrslur réði Ronaldo sér bæði markaðsmenn og almannatengla til þess að stýra fjárfestingum og ímyndarmálum. Hvorir tveggja hafa þjónað honum dyggilega. Fátæka eyjaskeggjanum frá Madeira hefur farnast vel. Auðgast bærilega, lagt sitt af mörkum til góðgerðarmála og sloppið betur en margur undan papparössum og slúðurmiðlum – þar til eftir leikinn gegn Íslandi.

 

Hver er sinnar gæfu smiður

Þegar um er að ræða þjóð mótast ímynd af mörgum mismunandi þáttum; menningu, náttúru, sögu, velferð, heilbrigðis- og skólakerfi, stjórnmálum og íþróttum svo eitthvað sé nefnt. Þar geta afglöp á einu sviði haft stórskaðleg áhrif á þá heildarmynd sem dregin er upp af okkur sem þjóð. Afrek eru á hinn bóginn vel til þess fallin til þess að styrkja imyndina. Hjá einstaklingi mótast ímynd fyrst og síðast af orðum og athöfnum þess sem um ræðir. Þannig ræður Cristiano Ronaldo sjálfur mestu – með eða án aðstoð almannatengla – um þá mynd sem dregin er upp af honum.Með stuttu en afar misráðnu viðtali tókst Ronaldo á örskotsstundu að sverta eigin ímynd alvarlega um leið og hann varð Íslandi óvænt en dýrmæt landkynning.

Hafa hlutverkin frá 2009 snúist við?