Kolbeinn Marteinsson framkvæmdastjóri Athygli var í viðtali við Morgunblaðið mánudaginn 9. maí,  þar sem fjallað var um komandi forsetakosningar og hvernig kosningabaráttan hefur færst á Netið.

„Samfélagsmiðlar eru ein birtingarmynd gjörbreytts samfélags og geta haft mikil áhrif á þróun mála í forsetakjöri,“ segir Kolbeinn Marteinsson hjá Athygli ehf. Að skapa tengsl og kynna málstað er viðfangefni frambjóðenda þegar gengið er til kosninga. Mörgum er áhyggjuefni að kosningaþátttaka hefur minnkað verulega á síðustu árum og er nú aðeins 70-80%. Í því efni skiptir máli að virkja fólk til þátttöku, til dæmis með úthringingum.

Grasrótarstarfið aldrei mikilvægara
„Það er ekki sama þörf og áður til dæmis í forsetakosningum að opna skrifstofur um allt land þar sem fólk hittist og ber saman bækur. Í dag getur skipulagsvinnan farið fram í gegnum netið og þar tel ég hjarta kosningabaráttunnar verði. Rannsóknir frá Bandaríkjunum sýna að kjósendur afla sér upplýsinga um stefnumál og frambjóðendur á netinu. Eigi að síður skiptir öllu að virkja fjöldann og fá í liðið fólk sem er tilbúið að leggja talsvert á sig fyrir frambjóðandann. Framboð sem ætlar að keyra á starfsfólki í stað hugsjónafólks nær aldrei sama krafti og stemmingu,“ segir Kolbeinn.

Samkvæmt rannsóknum í Bandaríkjunum frá forsetakosningunum 2012 kom í ljós að 22% kjósenda sögðu frá því á samfélagsmiðlum hvern þau kysu. Um þriðjungur kjósenda sagðist hafa fengið hvatningu frá vinum sínum á félagsmiðlum um að kjósa annað hvort Mitt Romney eða Barack Obama. „Við erum mun síður á varðbergi gegn því sem vinir okkar á samfélagsmiðlum segja en þegar við fáum óumbeðin skilaboð í gegnum auglýsingar og markpósta. Því getur vel skipulögð kosningabarátta á samfélagsmiðlum með félagsmálatröllum, sem svo eru kölluð, og vel tengdu fólki náð verulegum árangri. Grasrótarstarf hefur aldrei verið mikilvægara.“

Kolbeinn telur að verðleggja megi eitt stykki forsetaframboð á kannski um 30 milljónir króna, svipað og litla blokkaríbúð á höfuðborgarsvæðinu. En það er hægt að komast af með lægri upphæð. Kolbeinn er raunar þeirrar skoðunar að yfirkeyrsla í auglýsingum, eins og hann kemst að orði, sé sóun á fjármunum. Frekar eigi að setja fjármuni í skipulag á viðburðum, sýnileika á netinu og þar með samfélagsmiðlum. Slíkt geti haft afgerandi áhrif.

„Frambjóðendur þurfa að vera hugmyndaríkir og reyna fjölbreyttari leiðir. Samfélagsmiðlar eru í eðli sinni gerólíkir og þeir hafa ólíkan styrkleika hvað varðar skilgreindra markhópa. Þó að 90% Íslendinga séu á Facebook þýðir það ekkert endilega að sá miðill henti best til að ná til yngra fólks sem dæmi. Miklu nærtækara væri að skipulegga miðlun skilaboða út frá styrkleikum hvers miðils,“ segir Kolbeinn. Þá skipti heimavinna miklu máli. Móta eigi sérstöðu frambjóðanda og skilgreina 3-5 lykilskilaboð. „Maður sér alltof oft þegar frambjóðendur ana af stað en sleppa grunnvinnunni. Erindið þarf að vera vel skilgreint og klárt. Menn eiga að tala um framboð sitt en ekki keppanautanna.“

Þurfa að vera þekktir
Aldrei hafa jafnmargir gefið kost á sér í forsetakosningum og nú. Athyglin beinist þó öðru fremur mest að 3-4 frambjóðendum en það skapar þá hættu að aðrir sem eru í framboði, til dæmis þeir sem eru lítt þekkir, fái minni athygli fjölmiðla en jafnræðisreglur lýðræðisins kannski gera ráð fyrir. „Það er kannski stóri sannleikurinn að í svona baráttu snýst málið um erindi. Ef viðkomandi þarf að bæði að kynna sig sérstaklega svo og sjónarmiðin getur verið á brattann að sækja. Frambjóðendur þurfa helst að vera nokkuð þekktir. Atburðir geta síðan haft óvæntar afleiðingar og ef frambjóðandi kemst í þá stöðu að geta látið ljós sitt skína getur það skilað miklu,“ segir Kolbeinn.“