„Framkvæmdakynning er ekki trúverðug og áhrifarík nema menn haldi þar dampi bæði í meðbyr og mótbyr.“

Framkvæmd og kynning fari saman

„Stöðug og markviss kynning ætti að vera sjálfsagður liður í framkvæmdum af stærra taginu og ýmsum minnháttar framkvæmdum reyndar líka. Íslendingar hafa einfaldlega áhuga á framkvæmdum yfirleitt, margir hverjir að minnsta kosti, og vilja fylgjast með gangi þeirra. Eðlilegt er að þeir sem standa að framkvæmdunum taki sjálfir þátt í að upplýsa almenning en láti ekki aðra um það,“ segir Atli Rúnar Halldórsson, ráðgjafi hjá Athygli. Hann hefur komið að kynningarmálum framkvæmda af ýmsu tagi og er reynslu ríkari í þeim efnum.

Kynning frá upphafi

„Kynning getur verið upphaf söluferlis, til dæmis varðandi byggingarlóðir og ný bæjarhverfi eða jarðgöng sem á að borga með veggjöldum. Svo verður að gera ráð fyrir að eitthvað komi upp á á framkvæmdatímanum og þá er auðveldara að skýra og upplýsa á vettvangi sem fyrir er og þekktur en ef ótíðindin sjálf neyða menn til að hreyfa sig í kynningarmálum,“ segir Atli Rúnar ennfremyr.

„Óvenjulegu verkefnin eru minnisstæðari en þessi hefðbundnu. Til dæmis annaðist ég kynningarmál í Flugstöð Leifs Eiríkssonar þegar fyrstu stóru breytingar voru gerðar á henni. Verkefnið snerist ekki síst um að upplýsa starfsmenn í flugstöðinni um gang mála því á þá reyndi mánuðum saman þegar allt var á öðrum endanum innan dyra, dínamítssprengingar úti og í kjallara með tilheyrandi ónotum. Það gekk betur að fá fólk til að sætta sig við erfiðar vinnuaðstæður og þrauka þegar það var upplýst um hvað væri verið að gera og hvers vegna.

grafarholt

Teikning af væntanlegu Grafarholtshverfi eftir Þórhildi Jónsdóttur, grafískan hönnuð og myndlistarmann. Myndin birtist árið 1999 í kynningarbæklingi sem hún hannaði og Athygli gaf út fyrir embætti borgarverkfræðings í Reykjavík. Þórhildur studdist við líkan af hverfinu og flaug síðan yfir Grafarholtið til að skynja betur byggingarsvæðið og umhverfi áður en hún fór að teikna.

Kynning á Grafarholti sem nýju byggingarlandi í Reykjavík var líka framkvæmdatengt verkefni sem tókst vel og mjög gaman var að vinna að. Við bjuggum til bæklinga og fleira kynningarefni um skipulag Grafarholtshverfis, húsagerðir, götur, jarðfræði, veðurfar, gróðurfar og hvað eina sem hægt var að tína til. Þetta voru grunngögn sem síðan voru notuð til að „selja“ Grafarholtið með góðum árangri.“

Vefur um Hvalfjarðargöngin

Atli Rúnar hefur líka starfað að kynningarmálum fyrir umdeildar framkvæmdir og nefnir tvær slíkar, Hvalfjarðargöng og Kárahnjúkavirkjun. „Í aðdraganda þess að framkvæmdir hófust við Hvalfjarðargöng sumarið 1996 sýndu viðhorfskannanir að þrír af hverjum fjórum landsmanna voru andvígir göngunum! Kárahnjúkavirkjun naut alltaf mun meiri stuðnings en Hvalfjarðargöng þá. Þetta kann að koma á óvart enda hafa flestir gleymt harðri andstöðu stórs hluta þjóðarinnar við göngin og sumir kæra sig kannski ekki um að muna það sem þeir sögðu þá því sá málflutningur er fyrir löngu orðinn efni í skemmtidagskrá á þorrablóti.

Við vorum í býsna miklum mótvindi en framkvæmdir hófust og gengu vel. Ég fékk tvo tölvuforritara, kunningja mína, til að búa til vefsíðu um gang mála undir Hvalfirði. Þetta var í frumbernsku Internetsins og þarna varð til fyrsta íslenska framkvæmdasíðan á Vefnum, gerð út framan af sem tómstundagaman okkar þremenninganna. Forstjóri verktakafyrirtækisins í göngunum þótti uppátækið ótækt og vildi láta loka vefnum en hafði auðvitað engin tök á því. Staðarstjóri hans í Hvalfirði fann hins vegar fljótt að vefurinn var til góðs og létti af honum álagi og kvabbi um upplýsingar um framkvæmdina. Hann fóðraði mig á upplýsingum á laun til að birta á vefnum! Smám saman breyttust viðhorf landsmanna til ganganna og þegar þau voru opnuð, sumarið 1998, var það með viðhöfn og fagnaðarlátum sem líkt var við þjóðhátíð! Spölur tók síðar við vefnum og hefur haldið honum úti með mig sem ritstjóra á vegum Athygli.“

Upplýsingalind fyrir almenning

Atli Rúnar segir að  kynningarmál vegna Kárahnjúkavirkjunar hafi að ýmsu leyti byggt á reynslu úr Hvalfirði. Vefsíða um virkjunarframkvæmdirnar var til dæmis útfærð í ljósi þess sem tókst vel við kynningu Hvalfjarðarganga. Margt var rætt og ritað um Kárahnjúkavirkjun á opinberum vettvangi og ýmsir sóttu sér efnivið í umfjöllun sína á karahnjukar.is, hvaða skoðun sem þeir svo höfðu á virkjuninni.

„Vefsíðan var mjög virkur miðill, upplýsingalind fyrir fjölmiðla og almenning. Hún var uppfærð í hverri viku og oft dag eftir dag. Þarna var fjallað um gang mála frá ýmsum hliðum og einnig um erfiðleika og ótíðindi í framkvæmdunum, til dæmis þegar vatnsflóð og grjóthrun í göngunum stöðvaði borvél og tafði verk hennar svo vikum skipti. Framkvæmdakynning er nefnilega ekki trúverðug og áhrifarík nema menn haldi þar dampi bæði í meðbyr og mótbyr.“