Ef þú hefur ekki heyrt af Pokémon Go nú þegar, má fullvíst telja að þú hafir verið strandaður á eyðieyju eða lokaður inni síðustu vikur. Undanfarin mánuð höfum við séð fólk vafra um götur starandi á símann leitandi að Pokemon fígúrum. Fjölmörg spaugilegar og sorglegar fréttir hafa einnig borist af spilurum leiksins. Leikurinn Pokémon Go sem er frá Nintendo er einn vinsælasti tölvuleikur ársins og í síðasta mánuði (júlí 2016) var búið að hlaða leiknum niður 100 milljón sinnum. Leiurinn gengur út á að ganga um umhverfi sitt og skoða það gegnum myndavélf snjalltækisins og leita að Pokémon fígúrum og veiða þær.  Leikurinn blandar því saman raunheim og sýndarveruleika með snilldarlegum hætti. En hvernig stendur á því að Pokémon Go er orðinn einn vinsælasti leikur ársins á aðeins einum mánuði?

Árangurinn er byggður á sniðugum útfærslum á þar sem gamalt  vörumerki var nýtt með nýjustu tækni og einkar sniðugum tæknilegum útfærslum.  Í þessum pistli skoðum við fimm atriði sem allir sem starfa við markaðs- og kynningarmál ættu að taka mið af og tileinka sér.

Sígandi lukka er best

Þetta er auðvitað eitthvað sem allir vita en oft þegar eitthvað nær heimsathygli virðast margir gleyma því að árangurinn er byggður á mörgum smáum skrefum og sigrum en ekki einu risastóru.  Þrátt fyrir að manni sýnist að Pokemon Go hafi komið úr lausu lofti og náð undraverðum árangri ótrúlega hratt þá býr mikill vinna og miklir fjármunir að baki árangri leiksins.  Svipaður leikur hafði áður verið  settur á markað, sem við fjöllum um síðar í þessum pistli sem ekki náði sama árangri. Pokemon er jafnframt 20 ára gamalt vörumerki sem naut mikilla vinsælda áður fyrr og naut fyrirtækið þess án vafa þegar leikurinn fór í loftið.

Rétt tímasetning

Pokémon Go var gefin út 6 júlí sem er um mitt sumar þegar flest börn á skólalaldri (aðal markhópurinn)  eru í fríi frá skólum.  Ekki aðeins hafa þessi börn meiri tíma til að spila leikinn heldur er einnig meiri dagsbirta og betra veður sem skiptir miklu máli þar sem leikurinn gengur útá að ganga utandyra um umhverfi sitt og leita að Pokémon fígurum. Lærdómurinn hér er að það er ekki nóg að búa til góða vöru. Það þarf líka að huga að því í hvaða tíma og rúmi varan er sett á markað.  Það skiptir miklu máli að skoða allar breytur út frá markhópi og miða tímasetningar út frá þeim.

Sýndarveruleiki og aðra tækninýjungar eru handan við hornið

Það tekur yfirleitt nokkurn tíma fyrir almenning að tileinka sér nýja tækni. Undanfarin ár hefur tölvuleikjaiðnaðurinn velt því fyrir sér hvenær sýndarveruleiki myndi taka við sér.  Miklum fjármunum hefur verið varið í rannsóknir og þróun á sýndarveruleika og  það er því aðeins tímaspursmál hvenær sá veruleiki verður orðinn almennur.  Pokémon Go hefur án vafa gefið okkur einhverja hugmynd um hvernig sá veruleiki geti mögulega litið út. Í Pokémon Go er blandað saman samskiptum í raunheimi við sýndarveruleika og það er þessi blöndun og upplifun sem gerir leikinn jafn ávanabindandi og raunin er.

Gamalt vín á nýjum belgjum

Þrátt fyrir að Pokémon Go appið sé aðeins mánaðargamalt þá er Pokémon vörumerkið 20 ára. Þrátt fyrir gríðarlegar vinsældir með appinu þá voru Pokémon spjöldin mjög vinsæl á sínum tíma.
Út frá markaðsfræði er þessi staðreynd eiknar áhugaverð. Hér er gömul hugmynd eða vara tekin og færð í nýjan búning studd nýjustu tækni og sett í samhengi við þær breytingar sem orðið hafa á umhverfinu. Það yrði vafalítið erfitt að markaðssetja Pokémon bréfaspjöldin í dag á tímum snjalltækja en hér tókst einkar vel til að nýta gamalt og sterkt vörumerki út frá styrkleikum þess.

Vörumerki skipta enn máli

Það er mikill einföldun að  segja að árangurinn við kynningu á Pokémon Go sé tilkominn eingöngu vegna tækninýjunga.  Staðreyndin er sú að árið 2013 var leikurinn Ingress settur á markað og var sá leikur mjög svipaður og Pokémon Go.  Margir sem spilað hafa þann leik telja hann jafnvel mun betri og vandaðri en Pokémon Go.
En af hverju náði Ingress leikurinn ekki sama árangri og Pokémon Go?
Vörumerkið Pokémon er tuttugu ára gamalt. Nafnið eitt og sér inniheldur sterka markaðsstöðu, fólk þarf t.d. ekki að leggja það á minnið.  Styrkur vörumerkisins hafði hér heilmikið að segja.
Lærdómurinn hér er mikilvægur, þrátt fyrir að þú sért að setja á markað nýja vöru sem er jafnvel betri en samkeppnin þá getur vel farið svo að þín vara verði undir í samkeppni vegna þess að ekki var hugað að vörumerkinu (Brandinu)  í upphafi.
Þrátt fyrir að þú hafir ekki hugmynd um hvað Pokémon Go er þá eru nokkrir mikilvægir punktar sem við getum lært af þessum árangri. Við erum greinilega stödd á krossgötum þegar kemur að markaðssetningu og miðlun upplýsinga. Þar sem snjalltæki munu spila sífellt stærra hlutverk og þar sem samskipti fólks og fyrirtækja verða flóknari.