Vöxtur ferðaþjónustu á Íslandi hefur verið ótrúlegur og skipt verulegu máli við endurreisn Íslands.
Mörg fyrirtæki eru í dag í blómlegum rekstri
Það er talið að erlendar bókunarsíður  taki á bilinu 2,8 – 4,1 milljarð króna í þóknun fyrir milligöngu sína þegar kemur að bókunum erlendis frá á íslenska gististaði.  Það er í raun með ólíkindum hversu lítið þetta hefur verið rannsakað en ef leitað er á vefnum má finna þar lokaverkefni Hermanns Valssonar frá árinu 2015 um þetta.  Frétt RUV um verkefnið má sjá hér.
Bókunarsíður taka á bilinu 15-30% í þóknun og ljóst má vera að eftir miklu er að slægjast fyrir rekstraraðila ef þeim tekst að minnka umsvif bókunarfyrirtækjanna og þau sjálf sjá um milliliðalausa sölu.  En er hægt að breyta þessu? Eru bókunarsíðurnar með algera yfirburðastöðu þegar kemur að sýnileika á netinu? Samkvæmt rannsókninni nýta 80% ferðamanna sér bókunarsíður. Það er því til mikils að vinna með því að minnka þetta hlutfall.

Jú vissulega eru þessar síður gríðarsterkar og þær eyða miklu fé í markaðssetningu á netinu.
Ferðaþjónustufyrirtæki eru þó í góðri stöðu til að ná til sín milliliðalausri umferð og selja erlendum ferðamönnum beint og milliðilaust gegnum eigin vefsvæði.  Samkvæmt tölum frá Íslandsstofu voru um 61,6 milljónir leitafyrirspurna um Ísland á Google á árinu 2015.  Það gerir um 117 fyrirspurnir á hverri einustu mínútu ársins. Ef árið 2015 er borið saman við árið áður er vöxturinn milli ára 28%.  Þessir aðilar vildu fræðast um Ísland milliliðalaust og það er hér sem tækifærin liggja. Þessi aðilar leita að upplýsingum um Ísland frekar en að fara beint inná sölusíður.

Þekktar leiðir til að auka sýnileika sinn á netinu eru m.a. leitarvélarbestun og greiddar auglýsingar sem tengdar eru við leitarniðurstöður.   Eins er endurmarkaðssetning mikið notuð í ferðaþjónustu þar sem neytandanum berast reglulega auglýsingar í kjölfarið á því að hafa skoðað sem dæmi gistingu eða bílaleigubíl.

Efnismarkaðssetning, langhlaup sem skilað getur miklum ávinningi.

Það er hægt að styrkja stöðu sína og auka sýnileika með Google og lyfta sér upp fyrir keppinautana í niðurstöðum leitavéla án þess að greiða sérstaklega fyrir það með auglýsingum á netinu.  Það er best gert með efnismarkaðssetningu (content marketing). Við skilgreinum efnismarkaðssetningu á eftirfarandi hátt á vef okkar hjá Athygli.

Efnismarkaðssetning er nálgun þar sem lögð er áhersla á að búa til og dreifa reglulega efni sem er virðisaukandi, fræðandi og viðeigandi fyrir skilgreindan markhóp. Markmiðið er að nálgast nýja notendur og viðhalda þeim sem fyrir eru. Með því að byggja upp samband neytenda og fyrirtækis með þessum hætti er stuðlað að því að neytandinn sjálfur kjósi að nýta sér þjónustu eða kaupa vörur viðkomandi.

Með því að skilgreina kaupendur og útbúa dæmi um nokkra slíka út frá núverandi viðskiptamannahópi má klæðskerasauma efni sem dreift er með það að markmiði að það svari leitarniðurstöðum viðkomandi. Gefum okkur sem dæmi aðila úti á landi sem rekur lítið sveitahótel. Viðskiptavinirnir hans eru flestir frá meginlandi Evrópu og N-Ameríku og þeir vilja fyrst og fremst gistingu á hagstæðu verði með góðum morgunmat. Hér myndum við skilgreina nokkra aðila sem væntanlega kaupendur. Einn gæti verið John frá N-Ameríku. Hann er á aldrinum 29-40 ára. Hann ferðast í ódýrum bílaleigubíl með maka sínum og er ekki með börn. Hann vill upplifa Ísland á hagstæðan hátt á sínum forsendum en samt borða vel og sofa í góðu rúmi.  Í framhaldinu yrðu útbúnar nokkrar slíkar kaupendapersónur þannig að þær gæfu góða mynd og dreifingu af núverandi viðskiptavinum hótelsins.  Hótelið sem um ræðir myndi ákveða að fara þá leið að blogga reglulega á vefsvæði sínu með það að markmiði að dreifa efni sem viðkomandi kaupendapersónur hefðu áhuga á. Efnið væri skrifað með það að markmiði að John finndist það áhugavert og hann kæmi aftur til að fá frekari upplýsingar. Bloggið gæti t.d fjallað um hvernig hægt er að skoða Ísland á hagkvæman hátt (ekki kaupa vatn heldur drekka það af krana) , helstu ástæður til að heimsækja þann landshluta sem hótelið er í og s.frv.  Allt efni sem áðurnefndum John myndi þykja áhugavert og hann væri því vís með að koma aftur á vefsvæðið til að fá frekari upplýsingar.

Lykilatriðið hér er að 80% af efninu á að vera til skemmtunar, vera virðisaukandi eða til fræðslu. 20% má vera meira sölutengt og tengjast þeim rekstri sem stendur á bak við upplýsingarnar. Með þessu móti er hægt að byggja upp trygga gesti að vefsíðunni sem þyrstir í að lesa og fræðast meira.

Leitarvélar í dag skoða nefnilega fleiri hluti en bara innlit og flettingar.  Virkni notenda er farin að hafa miklu meira vægi. Ef þú eyðir löngum tíma á ákveðinni vefsíðu, kaupir jafnvel af þeim vörur beint, meta leitarvélar það svo að leitarniðurstaðan sem skilaði þér þangað hafi töluvert gildi og viðkomandi síða fær aukið vægi þegar samsvarandi leitir eru gerðar.  Eins eru nýjar færslur skoðaðar og fá þær hærra vægi en þær sem eldri eru. Af þeim sökum er nauðsynlegt að uppfæra vefinn reglulega með nýju efni.
Af hverju eru ekki allir í efnismarkaðssetningu?
Ótrúlega víða á netinu má sjá síður þar sem farið var af stað að miðla efni en því hætt. Þetta er langhlaup og það er ekki ólíklegt að árangur fari fyrst að sjást eftir 2-3 mánuði í auknum heimsóknum á vefsvæðið. Ef menn gefast ekki upp og efnið sem er verið að dreifa er vandað og nær til kaupendapersónanna, þá mun árangurinn aukast með hverjum mánuði sem líður.

Eilífur sýnileiki
Ef þú hefur úthald og þrautseigju og nærð þeirri stöðu að efni af síðunni þinni er deilt og tengt öðrum vefsvæðum fer það að virka eins og segull inn á vefsvæði þitt og heimsóknum fjölgar mjög hratt. Leitarvélar benda á það og nýjir viðskiptavinir streyma að.  Þó að hér hafi sjónum verið beint að skrifuðum texta má efnið  vera annarar gerðar, t.d, ljósmyndir, blog, greinar eða fréttir og ef geta er fyrir hendi stutt myndbönd.
Aðalatriðið er skilgreina markhópinn (kaupendapersónuna), setja sér skýr markmið um hvernig efninu skuli dreift, hversu oft skal dreifa og hver geri það og af hvert efnið á að vera.

Veruleg tækifæri eru fyrir íslensk ferðaþjónustufyrirtæki til að auka arðsemi með því að tileinka sér efnismarkaðssetningu. Eins og staðan er nú eru eru þau að verða af verulegum fjármunum sem renna til erlendra bókunarsíðna.