Kolbeinn Marteinsson var í ársbyrjun ráðinn sem framkvæmdastjóri Athygli en Athygli er stærsta fyrirtæki landsins sem sérhæfir sig í ráðgjöf í samskiptum og miðlun upplýsinga auk þess að búa yfir sterkum útgáfuarmi. Kolbeinn hefur víða komið við í íslensku atvinnulífi og hefur reynslu af því að starfa bæði innan hins einkarekna geira sem og fyrir stofnanir og ríki. Hann lét af störfum sem kynningar- og markaðsstjóri Menntavísindasviðs Háskóla Íslands í lok síðasta árs en áður starfaði hann sem aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur í fjármála- og iðnaðarráðuneytinu. Þar á undan hafði Kolbeinn langa reynslu af markaðs- og kynningarmálum hjá Skaparanum þar sem hann var jafnframt framkvæmdastjóri.

Spennandi tímar í samskiptaþróun
Samskiptaþróun og hvernig við miðlum upplýsingum bæði til vina og í samskiptum við fyrirtæki hafa þróast ógnarhratt á undanförnum áratug: „Ég er sjálfur sérmenntaður í hefðbundnum almannatengslum og þegar ég lauk námi árið 2004 var lítið fjallað um áhrif internetsins í náminu. Ég held að fáir hafi getað gert sér í hugarlund hvernig internetið myndi þróast og hversu mikill áhrif það hefur á líf okkar í dag,“ segir Kolbeinn. Hann segir að með innreið samfélagsmiðla og snjalltækja hafi þróunin stigmagnast langt út fyrir það sem menn gátu spáð fyrir. Þessi þróun nái einnig til þess hvernig fyrirtæki miðli upplýsingum sínum og komi skilaboðum sínum áfram með sívaxandi mæli.

 

Virk og gagnleg samfélagssíða krefst mikillar vinnu
„Almannatengsl og markaðsmál munu breytast hratt á næstu árum líkt og þróunin hefur verið undanfarin ár. Stór og vaxandi hluti af þjónustu okkar er að vinna með fyrirtækjum og stofnunum að þeim áskorunum sem samfélagsmiðlar og netið skapa. Það er ekki nægjanlegt að opna síðu eða reikning á samfélagsvef og halda að allt fari af stað í kjölfarið. Það kostar mikla vinnu og skuldbindingu að byggja upp trúverðugar boðleiðir á þeim miðlum. Þeim sem tekst vel til er þó oft launað ríkulega með raunverulegri viðskiptavild,“ segir Kolbeinn.

„Sumir aðilar hér á landi eru búnir að átta sig á þessu og samtvinna samfélagsmiðla á mjög skemmtilegan og árangursríkan hátt með hefðbundnum miðlum. Samfélagsmiðlar geta líka samhliða leyst vandamál eins og innri samskipti til starfsfólks því oftar en ekki fylgist fólk með fyrirtækinu sem það vinnur hjá í gegnum samfélagsmiðla. Starfsfólk getur því verið mikilvægur móttakandi skilaboða sem fyrirtæki og stofnanir senda út þó að það sé ekki skilgreindur markhópur. Aðalatriðið er að setja sér skýra stefnu um notkun þessara miðla. Á hvað miðlum er líklegast að ég nái árangri? Þó að 90% íslensku þjóðarinnar sé á Facebook er það ekki sjálfsagt að sá miðill sé endilega heppilegastur fyrir þá vöru eða þjónustu sem þú ert að bjóða, sinna eða selja.“

 

Efnismarkaðssetning ryður sér til rúms
„Efnismarkaðssetning (e. Content marketing) er annar þáttur sem við leggjum mikla áherslu á og finnum fyrir vaxandi þörf fyrir. Efnismarkaðssetning gengur út á að útbúa áhugavert efni; texta, myndskeið, myndefni eða annað, og því miðlað til skilgreinds markhóps sem viðkomandi vill ná til. Með þessu móti má byggja upp samband og fanga athygli markhópsins í stað þess að kaupa hana. Þetta er hinsvegar langhlaup sem krefst þess að 70-80% af því efni sem miðlað  er sé einvörðungu til að fræða viðkomandi eða vera áhugavert. Á þann hátt tryggir maður að viðkomandi kemur aftur sjálfviljugur og er jafnframt líklegri til þess að vera opinn fyrir þeirri þjónustu eða vörum sem viðkomandi deilandi býður uppá. Hin 20-30% má síðan nýta til þess að kynna þjónustu eða vöruframboð eða hvað annað. Þetta hlutfall ætti þó alltaf að vera leiðarstefið,“ segir Kolbeinn en ljóst er að efnismarkaðssetning er töluvert frábrugðin hefðbundinni markaðssetningu og tengist því fyrst og fremst að byggja upp traust og í raun gagnvirkt samband við mögulega viðskiptavini og auka þannig jákvæðni og velvild gagnvart fyrirtækinu. Að því leyti er hún í raun skyldari því sem kalla má almannatengsl – að efla ímynd og samtal við almenning og skilgreinda markhópa.

Einnig má nýta efnismarkaðssetningu til að skapa sér sterka stöðu á leitarvélum þar sem hægt er að byggja upp sterkan sýnileika með góðu og vönduðu efni sem fólk les. Lykilatriðið hér er þó að þetta er langhlaup sem ekki skilar sýnilegum árangri fljótt. Við erum til að mynda farin að vinna með ferðaþjónustufyrirtækjum í efnismarkaðssetningu á vefjum þeirra og sjáum aukna umferð og milliliðalausa sölur aukast með þessu móti.“

 

Hefðbundin almannatengl enn góð og gild
„Stór hluti vinnu okkar, sem störfum í almannatengslum, snýst um að búa til texta og því eigum við oft á tíðum mikið magn af góðu efni sem nýta má beint í efnismarkaðssetningu samhliða hefðbundari vinnu okkar fyrir viðskiptavini okkar. Einhverjir kynnu að telja að hefðbundin almannatengsl væru að víkja fyrir tækniþróun og samfélagsmiðlum en því er í raun öfugt farið. Samskipti við viðskiptavini eru enn mikilvægari með tilkomu samfélagsmiðla og því má segja að almannatengsl hafi styrkst með viðbót samfélagsmiðla sem skapa fleiri farvegi til að koma skilaboðum á framfæri eða eiga í samtali við almenning.“

 

Athygli í vexti
Athygli var stofnuð árið 1989 og er annað elsta almannatengslafyrirtækið í landinu. Fyrirtækið starfsrækir skrifstofur í bæði Reykjavík og Akureyri  og hefur í gegnum tíðina skapað sér sterka stöðu á fyrirtækjamarkaði.

„Athygli hefur t.d. starfað náið með mörgum aðilum í sjávarútvegi, bæði hvað varðar ráðgjöf en ekki síður á útgáfusviðinu. Við gefum út nokkur blöð og tímarit í sjávarútvegi eins og Ægi, sem kemur út 10 sinnum á ári, Sóknarfæri í sjávarútvegi, sem við munum gefa út fjórum sinnum á þessu ári og tímarit á ensku sem heitir Cool Atlantic,“ segir Kolbeinn. „Á teikniborðinu hjá okkur er að stíga ákveðnar inn í sjávarútveginn og munum við fljótlega kynna nýjan og öflugan vef um sjávarútvegsmál sem við ætlum okkur stóra hluti með,“ segir Kolbeinn. Hann segir það skemmtilega áskorun að ganga til liðs við traust og gamalgróið fyrirtæki eins og Athygli og það verði spennandi að leiða það áfram inn í hið nýja tækniumhverfi og þau tækifæri sem bíða þar víða.