Kolbeinn Marteinsson framkvæmdastjóri Athygli var í viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins þann 27. október. Í viðtalinu kemur fram að íslenskur sjávarútvegur á mörg vannýtt tækifæri á sviði almannatengsla.

„Fyrirtækin í greininni hafa mörg sinnt sínum almannatengsla- og markaðsmálum mjög vel, og þá ekki hvað síst á erlendum mörkuðum þar sem þeirra stærstu kaupendur eru. En betur má gera heima fyrir, sérstaklega þegar haft er í huga að allar rekstrarforsendur eru háðar því lagaumhverfi sem stjórnvöld skapa greininni. Þegar allt kemur til alls þá starfar ekkert fyrirtæki nema með samþykki almennings, og á meðan ekki ríkir almenn sátt um margar hliðar sjávarútvegsins þá er hætta á að á fjögurra ára fresti verði greininni umturnað.“

Áskoranir í vændum

Bendir Kolbeinn á að sjávarútvegurinn standi frammi fyrir nokkrum erfiðum áskorunum, þar sem vönduð almannatengsl geta komið að miklu gagni. Hann nefnir mögulegt loðnuveiðibann og verkfall, styrkingu krónunnar og versnandi ástand á sumum mörkuðum. „Og umræðan um veiðileyfagjöld virðist seint ætla að enda með niðurstöðu sem allir geta sætt sig við.“

Segir Kolbeinn að fulltrúar greinarinnar hafi tekið slaginn í nokkrum málum. „SFS hefur tvímælalaust látið vita af sér en hefur valið orrusturnar af kostgæfni, sem er skynsamlegt, því að vera stöðugt í sviðsljósinu að benda á hluti sem betur mættu fara getur skapað neikvæða ímynd í huga almennings – sá sem tekur hvern einasta slag verður fljótt „öskrandi karlinn“ í sjónvarpinu,“ segir hann. „Þá virðist mér að helstu aðilar í greininni haldi enn að sér höndum eftir þann darraðardans sem sjávarútvegurinn gekk í gegnum árið 2012 þegar veiðileyfagjöldin voru lögð á. Fyrirtæki og hagsmunasamtök hafa vitaskuld takmarkaða getu til að standa í stöðugri ímyndarbaráttu enda heilmikil vinna að sinna rekstrinum.“

Einsleit umræða

Myndi Kolbeinn vilja heyra fleiri raddir úr sjávarútveginum, og koma fleiri sögum úr greininni upp á yfirborðið. „Umræðan um íslenskan sjávarútveg er mjög einsleit og einblínir helst á hagnaðartölur einstakra fyrirtækja. En ef að er gáð þá gengur ekki öllum jafn vel, og þar sem reksturinn er blómlegur er mikið fyrir árangrinum haft. Er fullt af áhugaverðum sögum í greininni sem mættu heyrast.“

Bætir Kolbeinn við að þróunin virðist í rétta átt, og þannig hafi t.d. sumir fjölmiðlar verið duglegir við það í seinni tíð að flytja fréttir og viðtöl úr ýmsum kimum sjávarútvegsins og metnaðarfull hátæknivædd sprotafyrirtæki verið áberandi. „Þá valdi SFS mjög flottar og öflugar konur bæði sem framkvæmdastjóra og fölmiðlafulltrúa, og nýlega réð Sjávarklasinn kvenkyns framkvæmdastjóra. Þetta eru talsmenn af öðrum toga en þeir sem hingað til hafa verið í forsvari fyrir greinina og má hrósa fyrir það.“

Einn mikilvægur hlekkur í almannatengslastarfi sjávarútvegsins segir Kolbeinn að sé að fyrirtækin hugi vel að samfélagsábyrgð. „Víða um land er þetta gert mjög vel, og t.d. eru útgerðir bakhjarlar flottra menningarviðburða. Ein möguleg skýring á andstöðu og andúð í garð sjávarútvegsins í sumum kreðsum er að fólk, t.d. á höfuðborgarsvæðinu, finnur ekki að það eigi sömu hlutdeild í velgengni greinarinnar og fólk sem býr í öðrum landshlutum.“

Að leiða frekar en að svara

Segir Kolbeinn líka að greinin þurfi að sýna frumkvæði. Auðveldara sé að leiða umræðuna en að bregðast við henni. „Fjölmiðlaumræðan virðist oft litast af hrópi og köllum af jöðrunum, og stundum aðeins að önnur hlið mála fái að heyrast, og þá heyrist sú rödd hæst sem heyrist fyrst.“

Þá verði líka að hafa hugfast að neikvæðnin virðist beinast þangað sem vel gengur. Eftir hrun beindust spjótin að sjávarútveginum, enda naut greinin góðs af veikri krónu. „Þar á undan var það fjármálageirinn sem var á milli tannanna á fólki, og núna er reglulega rætt um okur og brask í ferðaþjónustu.“

Kolbeinn myndi vilja sjá markvissa rannsóknar- og greiningarvinnu þar sem komist væri til botns í því hvar skórinn kreppir í ímyndarmálum sjávarútvegsins, og í framhaldinu að leitað yrði leiða til að bæta ímyndina og ná fram einhvers konar sátt um helstu deilumálin. „Og mörg fyrirtæki mættu gera gangskör í sínum almannatengslamálum. Almannatengsl eru langhlaup og ekki eitthvað sem bara reddast, heldur þarf að vinna að þeim markvisst og heildstætt, hvort sem það felst í því að ráða hæfan upplýsingafulltrúa eða kaupa nokkra tíma hjá almannatengslaráðgjöf.“
Ljósmynd: Haraldur Guðjónsson Thors